Friday, December 30, 2011

Gleðilega hátíð


Þó að íslensk jól séu án efa þau bestu í heimi átti ég mjög góða jólahelgi. Síðustu vikuna fyrir jól var ég með smá jólaheimþrá og veik í þokkabót.  En ég leyfi mér ekki að hugsa neikvætt lengi. Það á að njóta þess sem er núna. Jólin skiptir okkur íslendinga svo miklu máli. Við lifum langa myrka daga af við tilhugsunina um jólin. Við eigum meira að segja 13 sinnum fleiri jólasveina en aðrar þjóðir! Hér gegnir jólasveininn engu öðru hlutverki en að auglýsa fyrir coke. Jólalögin á spænsku með salsa ívafi, jólaskraut í bleikum og bláum litum og skóli fram á Þorláksmessa, nákvæmlega ekkert jólalegt. Svo ekki sé minnst á að það er ennþá sumar í mínum huga. Það er ekkert hátiðlekt við sólgleraugu og vörn. En á miðvikudagskvöldið fyrir jól komum við saman öll fjölskyldan og bjuggum til “fundas de caramelos” sem eru nammipokar sem hefð er fyrir að fólk geri og gefi fjölskyldu, vinum og þeim sem minna mega sín. Það var hlustað á jólalög og sett á stað leynivina leik í fjölskyldunni. Þá fattaði ég að það er mjög frekar nett að vera að halda upp á jól í Ekvador með fólki sem veit ekki einu sinni hvernig íslenskir siðir eru. Ég sagði þeim að við borðum venjulega önd heima hjá mér, þau fóru að skellihlægja. Önd hérna kostar 250 krónur og aðeins fátækt fólk borðar önd, og það ekki á jólunum. 

Það er eitt sem íslendingar mega taka Ekvadora til fyrirmyndar í sambandi við jólin. Það er ekki til neitt sem heitir jólastress. Um 6 leytið eftir að við vorum öll búin að standa á haus við að elda jólamatinn, áttum við að fara að skipta um föt. Ég fór auðvitað í fallegasta kjólinn sem ég er með. Þegar ég kom fram, voru þau öll í gallabuxum. Við vorum að fara í heimsókn til tio Marío, sem er bróðir papi, töff kall á miðjum aldri, heimspekingur sem vinnur fyrir sameinuðu þjóðirnar, hefur farið allstaðar og hefur nóg frá að segja. Í bílnum á leiðinni segir mamí við okkur, ekkert svo svekkt: æi við náðum ekki að kaupa neinar jólagjafir! Við kaupum þær bara í vikunni... og krakkarnir svara: ohh það var líka þannig í fyrra! Ég er nú nokkuð viss um það að það yrðu einhver uppþot í Mosó ef mamma og pabbi mundu segja við okkur að þau hafðu ekki náð að kaupa neina gjöf á aðfangadagskvöld. Þegar við komum til tío Marío, allt of sein, auðvitað, við erum í ekvador, var hann ekki heima, hann skrapp út í búð. Á meðan röltum við mamí og systir mín aðeins um. Við rákumst á bakarí og keyptum köku fyrir kvöldið. Hjá tío Marío borðuðum við smá snarl og spiluðum með fjölskyldunni hans papi. Um 11 leytið héldum við heim á leið. Það var borðaður ljúffengan mat. Súpa í forrétt og kalkún í aðalrétt (uppskrift sem ég fann, heppnaðist mjög vel!). Daginn eftir fórum við með fjölskyldunni hennar mamí út að borða á stað sem er rétt hjá miðju heimsins. Reyndar var okkur boðið í mat, en þegar við komum voru allir þar búnir að gleyma að við værum að koma í mat svo við enduðum á því að fara út að borða. Um kvöldið horfðum við elstu systkinin á bíómyndir á náttfötunum sprungin eftir allan jólamatinn.

Svona markaðir voru á hverju einasta horni fyrir jól, núna eru þeirr fullir af vörum fyrir gamlárskvöld.




Blogg sem ég póstaði aldrei, frá því um miðjan desember.

Ég er búin að upplifa margt á síðasta mánuði. Mánuður hér hefur aldrei liðið svona hratt eins og þessi, hann bara flaug hjá. Ég fór á Fiestas de Quito, dagsferð til Mindo, brúðkaup í Latagunga og í sunnudagsferð í Amazon. 

Fiestas de Quito er afmælishátíð Quito. Líkt og Menningarnótt í Reykjavík. Eini munnurinn er að fiestas de Quito standa yfir í 10 daga ekki 1 dag eins og í Reykjavík. Ég fór í þrjú skipti ásamt fjölskyldunni á Fiestas de Quito. Eitt skiptið tókum við host mamma mín til og skrifuðum niður plan fyrir daginn, miðað við dagskrá hátíðarnar. Þetta kom mér mjög á óvart og algjörlega ekki í takt við neitt sem ég hef upplifað hér, það er aldrei neitt voðalega skipulagt og ég veit nánast aldrei hvert við erum að fara þegar við förum í bíltúr. En ég komast að því að skipuleggja sig hérna vikar bara ekki, allir staðirnir sem við fórum á eftir skipulaginu var ekkert í gangi.. það hefði líklega verið betra að mæta klukkutíma of seint á alla staðina, þá hefðum við séð atburðinn. En það var mjög huggulegt á Fiestas de Quito. Tónlistar- og dansatriði og góður matur.

Út af Fiestas de Quito var frí  hjá mörgum í 2 daga. Annan daginn fórum við fjölskyldan til Mindo. Virkilega fallegur staður! Ég og systkinin mín fórum í aparólu, hoppuðum niður í á nokkra metra og í rennibraut með frjálsu fallið niður í ánna. Það varð samt smá misskilningur í rennibrautinni. Maðurinn sem var að leiðbeina sagði mér að stoppa rennibrautina aðeins í byrjun því annar færi hún of hratt, ég misskildi hann og hélt að hann væri að segja að hún færi ekki nógu hratt... þannig að ég ýtti mér áfram, fór mjög hratt og lenti með hausinn á undan niður í vatnið... en það endaði samt ekkert illa. 

Eitt laugardagskvöldið fór ég í brúðkaup. Þetta var brúðkaup hjá frekar fátæku fólki. Ég mætti í gallabuxum, og var frekar fín miðað við flesta. Úti tjald, garðstólar, hljómsveit, risa kaka, fullt af vondum mat og nóg af bjór. Það er mjög fyndið að sjá hvað host foreldrar mínir eru mikils metnir í svona veislum. Þau eru “fína og ríka fólkið úr Quito”. Þau þurfa alltaf að berjast til þess að fá að fara heim og  er þeim ávalt gefið fullt af mat til þess að taka með sér. 


Einn sunnudaginn fórum við í bíltúr í Amazon með vinafólki fjölskyldunnar. Það var ótrúlega fallegt! Fyrst þegar við vorum komin inn á Amazon svæðið voru enn há fjöll, öll þakin trjám. Ég man fyrsta mánuðinn sem ég var hér, þá var strákur héðan að hlægja af fjöllum sem hann hafði séð í Evrópu þegar hann var að ferðast þar. Hann sagði að þessi fjöll væru nú bara hólar miðað við fjöllin í Ekvador. Ég, evrópubúin og Íslendingur í þokkabót tók þessu nú frekar illa, að vera að tala illa um fjöllin okkar. En vá! þetta eru sko fjöll hér! Ekki smá há fjöll og þakin trjám. Og glitti svo ekki í jökul fyrir aftan fjöllin. Mjög falleg! Við héldum áfram að keyra niður á við. Eftir rúmlega 2 tíma akstur steig ég út úr bílnum og loftslagið var allt annað. Steikjandi heiti og raki. Við fórum í ferð inn í helli með leiðsögumanni. Það var á inni í hellinum og þurftum við að synda/vaða yfir hana til þess að halda göngunni áfram. Það var einnig foss og við krakkarnir stukkum út í. Þegar á hinn endann á hellinumvar komið blasti á móti okkur frumskógur og sól. Sáum líka fullt af klikkuðum öpun og indjána! 



Fjölskyldan í hellinum

Allir saman


Við fórum á bát yfir ánna...

 ...þar bjuggu indjánar.

(þið getið ýtt á myndirnar til þess að sjá þær stærri)

Gleðilegt nýtt ár
Jana 

Monday, November 28, 2011

4 mánuðurinn minn í Ekvador hafin...


...Og meira en mánuður síðan ég skrifaði blogg. Gaman að heyra að þið hafðir gaman af því að lesa og hvetjið mig til þess að skrifa. Ástæða þess að ég hef ekki skrifað að undanförnu er ekki neikvæð. Ég er einfaldlega að venjast lífinu hér, er hætt að finnast allt nýtt og skrýtið og ástæða til þess að skrifa í blogg. En úr því að ég er búin að vera löt að blogga hef ég mikið að segja frá. Ég ætla að segja ykkur aðeins frá daglegu lífi og uppákomum í skólanum, því sem ég hef verið að bralla um helgar og frá ferð sem ég fór í að vinna sjálfboðavinnu í vetrafríinu. 

Síðasta helgi
Um helgina fór ég í heimsókn til fjölskyldunnar sem ég bjó hjá fyrstu vikuna mína hér í Ekvador. Ég átti mjög góðan tíma þar. Á laugardaginn fórum við í ísbíltúr og horfðum á mynd. Á sunnudaginn fórum við á markaðinn, fengum okkur að borða og þau keyptu fullt af fóðri,10 hænuunga og einn grís, öllu troðið í og upp á þakið á bílnum. Ilmurinn í bílnum á leiðinni heim var eftir því. Það var mjög gaman að hitta þau öll, þau eru frábær!

Un techo para mi país, Ecuador
Það var vetrafrí í skólanum í byrjun nóvember. Ég fór ásamt systur minni langt uppi í fjöllin Í nánd við Chimborazo að vinna sjálfboðaliðastarfi. “Un techo para mi país, Ecuador” (þak fyrir landið mitt Ekvador). Þetta voru 4 daga ferð. 500 sjálfboðaliðar að byggja hús fyrir fátækt fólk. Okkur var skipt í hópa og hver hópur byggðu 2 hús.

Það var ótrúlegt að sjá inn í líf og húsakynni fólksins, eins og að vera komin inn í fortíðina. Fyrsta fjölskyldan sem hópurinn minn byggði hús fyrir átti nákvæmlega ekki neitt. Þau átti kofa, í líkingu við torfkofa. Inni í honum var eldstaður og nokkrir pottar ásamt skálum og skeiðum, í einu horninu hey sem þau sváfu á og nokkrar flíkur hengu í loftinu. Hinn fjölskyldan átti aðeins meira, þau átti rúm, tannbursta og fleiri eldhúsáhöld.  Sumar konurnar og sum börnin kunnu ekki einu sinni spænsku einungis quichua, sem er mál innfæddra. 

Ég fékk athygli enda augljóslega útlendingur, var kölluð gringuita (litli Bandaríkjamaður) og allir krakkarnir spurði hvort ég kynni ensku og hvort ég ætti pening. Einn strákur spurði mig meira að segja hvort ég vildi gefa sér myndavélina mína.

Það sem við vissum ekki var að hluti að þessu var að sjálfboðaliðarnir áttu að lifa við svipaðar aðstæður og fólkið sem við vorum að byggja hús fyrir. Þannig að það þýddu 4 dagar af vondum svefn, litlum og fjölbreyttum mat, ekkert rafmagn, kulda, engar sturtur né vaskar og viðbjóðslegum klósettum. En þrátt fyrir það var þetta frábær upplifun og ekki síst mjög skemmtilegt og ég kynntist fullt af fólki! En held ég hafi aldrei verið eins þakklát fyrir að komast í sturtu og þegar ég kom heim!

Skítugar, sólbrenndar, krúttlegar stelpur.
Húsið sem þau átti
Inni í húsinu og sjálfboðaliði að elda fyrir okkur. 

Skólinn
Skólinn minn er alls ekki upp á marga fiska námslega séð en hann leggur meira upp úr hlutum eins nemendafélaginu og skemmtidögum.
Síðasti föstudagur hvers mánaðar er bailoterapia í skólanum. Allir nemendur skólans og kennarar safnast saman á skólarlóðinni og dansa. Mér finnst að það skemmtó, strákunum finnst það hins vegar ekki eins skemmtilegt. Auk þess að það hlægilegt að fylgjast með kennurunum í spandex íþróttagöllunum sínum að dansa. 

Um daginn var íþróttadagur. Hann var haldin á laugardegi. Það átti að bjóða foreldrum sínum með. Strákarnir og feður þeirra hlupu 5 km hring og stelpurnar og mæður þeirra fóru í danstíma. Ég gerði ekki neitt, af því að ég var “prinsessa bekkjarnis”. Hver bekkur var með eina stelpu sem átti að klæða sig upp og vera fín og sæt á íþróttadaginn og svo var prinsessu keppni, en allar prinsessurnar unnu til allra hamingju. Frekar fyndið.

Bekkurinn á íþróttadeginum
Ég “stunda nám” á félagsfræðibraut skólans. Einn aðal kennari félagfræðibrautarinnar sem á að kenna okkur á hverju degi, einn tíma eða fleiri, er ein sinnar tegundar. Hún er kona á miðjum aldri, 20 kílóum of feit en samt gengur hún um í magabol. Henni dettur ekki í hug að kenna meira en 1 til 2 tíma í viku. Hina tímanna, kemur hún inn í stofuna, hlammar töskunni sinni á gólfið og fer eða situr í tölvunni sinni, spjallar eða horfir á sjónvarpið. En alltaf skrifar hún á tímaplanið, þar sem kennarnir skrifa hvað var tekið fyrir í tímanum, eitthvað sem hljómar merkilegt, eins og “fyrirlestrar” eða “samræður um stjórnmál”. Það er mikil skemmtun í því að lesa hvað hún nær að finna upp á. Einnig ef hún sér skólastjórann í nánd við stofuna, ríkur hún upp og skipar okkur að láta eins og við séum að læra.

 Um helgina varð ég fyrir þeirri óheppni að misstíga mig og núna er fóturinn minn allur blár og bólgin og ég haldrandi um. Ég ákvað að fara til skóla læknisins og spurja hann hvort ég gæti nokkuð gert nema bara bíða og haltra. Læknirinn er maður um 60. Hann er í þó nokkri yfirþyngt, blindur, getur ekki lappað án stafs og aðstoðarkonu sem er ávalt með honum og  heyrir að auki voða illa. Ég efast um að hann séð að fóturinn minn var þakin margblettum. Tók bara eftir beini sem stendur út úr fætinum á mér, og hefur alltaf gert, og fór að nudda það. Þetta var svo vont, það var næstum því liðið yfir mig þarna! Hver ræður blindan lækni? 

Það er mjög ómyndarleg kona sem er agastjóri skólans. Um dagin ákvað hún að halda fund með nemendum skólans á skólalóðinni, upp úr þurru. Hún kallaði í kallkerfið að það væri fundur. Bekkurinn minn og einn annar bekkur heyrðum ekki í kallinu og komum þess vegna 4 mínútum of seint á fundinn. Hún var ekki sátt með okkur og við fengum refsingu. Refsingin var að kaupa málningu fyrir okkar eigin peninga og mála sætin við íþróttavöllinn! Algjörlega fáranlegt, við öll búin að borga skólagjöldin! En við höfum ekki enn málað... efast um að það verði gert.

Fjölskyldan


Fórum í sunnudagsbíltúr í Amazon. Allt svo fallegt! Hér er mynd af fjölskyldunni.

Ég, mamma ekvador og bræður mínir fórum í sunnudagsbíltúr. Keyrðum fram hjá miðju heimsins. Þar var allt mjög þurrt, en hinum megin við hæðina, var allt fullt af gróðri! Mjög fallegt. Fórum að synda í þessari á, skoðuðum fiðrildi og orkítekur og borðuðum ljúffengan fisk. Mamma mín hér hefur mikla áhggjur af því að ég fái ekki nóg fisk, íslendingurinn. Hún keypti einhvern helling af fisku og setti í frystin, ég á að elda mér hann þegar mér langar ekki í kjöt. Ég held ég sé búin að borða meira fisk hér en ég geri heima... en hann er mjög góður, svo ég er sátt.

Fórum til Riobamba sem er í 5 tíma fjarlægð og mjög hátt uppi. Foreldrar mínir voru að verða guðforeldrar. Það athöfn í sveita kirkju og veisla eftir á. Þetta er fátækt fólk sem var að halda þetta, húsið þeirra var varla fokhelt, en ekki vantaði matinn. Risa skammtur af naggrís...

...og þessi stóra kaka í eftirrétt.

Já þetta er hoppukastallinn sem fjölskyldan mín leigði fyrir afmælið hjá 6 ára bróðir mínum. Það var stór veisla, með trúð, mat, risa köku og fullt af fólki.

Hluti af jólaskreytinum húsins, vantar reyndar risa glitrandi hreyndýrið sem var sett upp eftir að ég tók myndina og serían er ekki kveikt (hún er í öllum regnbogans litum).


Verið velkomin að kommenta. Það er mjög gaman að lesa!

Jana Eir


Monday, October 17, 2011

Lífið er ljúft

Það er einungis góðir hlutir að frétta af mér! Spænskan alltaf að verða betri og betri, er farin að elska matinn hér, orðin nánari fjölskyldunni  með aukni kunnátu í spænsku og búin að kynnast fullt af frábæru fólki!

Er alveg að meta það að hafa ekki skipulagða dagskrá alla daga eins og maður er svo oft með á íslandi. Þrátt fyrir það er allt er að falla í meiri rútínu. Ég er í skólanum alla virka daga. Dansi eftir skóla á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum. Sunnudagar eru fjölskyldudagar. Alla sunnudaga síðan ég kom hefur fjölskyldan gert eitthvað saman. Hina dagnna geri ég ýmist eitthvað með systur minni eða öðrum skiptinemum, ferðir í mollið, rækina, bíó eða chill hérna heima með systkinum mínum.







Fór í sund með mamí og Gusgus (yngsti stráknum) um daginn. Mjög flottur garður með tveim sundlaugum og íþróttavöllum. Vatnið er náttúruleg uppspretta af heitu vatni.









Á laugardaginn fór ég á hestbekk með nokkrum krökkum úr bekknum. Tókum strætó í klukkutíma, en hærra upp í fjöllin, á kaldasta stað í Ekvador. Ég náði nú samt sem áður að brenna... en ég fann að loftið var kaldara. 


Ég og Gusgus í Ibarra. Fjölskyldan fór þanngað einn sunnudaginn. Röltum um þetta vatn, skoðuðum fallegan markað og fengum okkur að borða. Heilan fisk og 6 kartöflur og það á mann. Allir í fjölskyldunni kláruðu allan þennan mat á met tíma. Það var ekki möguleiki að ég gat borðað þetta allt... borðaði ég á mig gat til þess að vera ekki dónaleg! Samt fékk ég undrandi spurningu af hverju ég kláraði ekki matinn minn. Þetta var matur fyrir 3! En virkilega ljúffengt, fiskur hér er mjög góður.


Fór á markaðinn klukkan 8 á sunnudagsmorgun. Fékk gómsæta sjávarréttasúpu  og þegar heim var komið borðuðum við jarðaberin sem við keyptum með rjóma namminamminamm...

La Ronda er gata í elsta hluta Quito. Ein fallegasta gata sem ég hef séð!

Ég fór þanngað á laugardagskvöldi. Það var allt fullt af fólki og tónlistarmenn eða götulistamenn hvert sem litið var. Kaffihús eða lítil veitingarhús út um allt, á þeim öllum var annað hvort lifandi tónlist eða listasýning. 


Gusgus (yngsti bróðir minn) verður 6 ára í vikunni. Það verður haldin afmælisveisla fyrir hann á laugardaginn. S-amerikubúar kunna að halda veislur! Fórum í risa stóra partý búð, sem var stútt full af fólki, og keyptum fyrir 20.000 krónur, og það var bara eitthvað pappírsdót til þess að skreyta, diskar, grímur og blöðrur. Ég sá þessar rosa flottu Latibæjarbækur...




Tuesday, September 20, 2011


Lífið síðustu 2 vikur
Ég fór ekki í skólann í dag. Mér var svo hrikalega illt í maganum í nótt. Maturinn hérna er ekki alveg sá hollasti. En mér líður vel núna. Ekki það a það skipti neinu máli hvort að ég mæti í skólann. Ég skil ekki neitt haha. En það er mjög gaman í skólanum og allir krakkarnir eru mjög næs! (Nema reyndar nokkrir strákar í bekknum, sem hafa virkilega gaman af því að ég geti ekki skilið þá og eru alltaf að spurja mig hvort ég vilji giftast þeim eða eitthvað álíka). 

Um síðustu helgi fór ég með host mömmu minni og bræðrum í sunnudagsferð til Quito. Við fórum í garð sem er staðsettur í S-Quito (eldri, fallegri og fátækari hlutinn). Við tókum hjól með á pallinn og hjóluðum um garðinn og götu sem er alltaf lokuð fyrir bílaumferð á sunnudögum og þá er fullt að fólki að hjóla hana og sumir að skokka. Mér fannst virkilega gaman að hjóla í sólinni.

Afmælisdagurinn minn var mjög góður. Ég bakaði bananaköku með súkkulaði daginn áður (besta kaka sem ég haf bakað, er mjög stolt af henni!) og tók hluta með mér í skólann. Krakkarnir í bekknum voru búnir að skipuleggja óvænta afmælisveislu í bekknum! Soldið mikið en þrátt fyrir það mjög gaman og krúttlegt :) Um kvöldið borðaði ég hinn hlutann af kökkuni með host fjölskyldunni og talaði við fjölskylduna heima og Arnar á skype. 

Bekkurinn og veislan! Ég er búin að vera með lokuð augun á nánast öllum myndum síðan  ég kom hingað.... Við erum 4 skiptinemar í bekknum. Einn frá bandaríkjunm, ein frá Sviss og 2 frá Íslandi.

Afmælisbarn.

Lang skásti skólabúningurinn. Bíðið bara eftir að sjá íþróttagallan og mánudagsfötin!

Útsýnið úr skólastofunni. (Ef þið smellið á myndirnar, verða þær stærri)

Besta kakan! 

Um helgina voru AFS búðir. Þetta var námskeið fyrir krakkana í Quito og Esmeraldas. Svo við allir íslensku krakkarnir nema Stefanía vorum saman. Esmaraldas er við ströndina og allt öðruvísi en Qutio, heitt, meira fátækt og mun dekkra fólk. Margrét (ein af íslensku skiptinemunum) býr þar. Mig langar mjög mikið þangað einhverntímann!  Búðirnar voru í Ibarra, sem er í tveggja tíma akstursfjarlægð frá Quito. Ég bjóst við búðum, svipuðum þeim sem við vorum í á fyrsta námskeiðinu. Lokuð inn á svæði í skítugum kofum. En nei við vorum á þessu fínasta hóteli, með sundlaug, rækt, casino, íþróttavöllum og frábærum mat! Það var mjög gaman á námskeiðinu og við krakkarnir kynntumst vel og mikið var brallað. Ég hlakka til á næsta námskeiði, en það er í janúar.

Arnar, Sigrún, Lucas og ég að borða á hótelinu fyrsta kvöldið á námskeiðinu. 

Í gær fór í í danstímann sem ég fer alltaf í á mánudögum og þriðjudögum. Danstíminn er 2 klukkutímar. Fyrsti klukkutíminn fer í ýmsar æfingar, ballet eða ýmsar rútinur (ég sökka í þessum rútinum) og seinni tíminn er tangó. Ég elska að dansa tangó! Ég kem alltaf brosandi allan hringinn út úr þessum tímum. Og ég er búin að fara mikið fram síðan ég byrjaði.





Vangaveltur um menningarmun á Ekvador og Íslandi
Ég hef einnig aldrei verið eins þakklátt fyrir alla þá mentunn sem ég hef hlotið og að allir í þeim samfélögum sem ég hef áður búið í hafa tækifæri á að njóta þeirra sömu menntunar. Hér eru það bara krakkar sem eiga ríka foreldra sem hljóta góða menntun. Systkinin mín hér eru öll í góðum skólum. Stelpan er á IB braut. Það er líka hægt að taka þessa braut í MH, þetta er alþjóðabraut kennt á ensku. Margir krakkarnir sem eru með henni í skóla eru mjög ríkir, eiga sundlaug og einkabílstjóra, haha og eru lang felst að skoða háksóla í bandaríkjunum. Hún var að lesa fyrir mig hvað skólarnir kosta sem hún er að pæla í, ég skil ekki einu sinni þessar upphæðir í dollurum. Minnsti strákurinn er 6 ára. Hann er að læra ensku og frönsku. En svona heppin eru ekki mörg börn hér. Í bekknum mínum kann ein stelpa eitthvað smá í ensku, annars kann enginn varla orð í neinu tungumáli nema spænsku. Það er ekki ekki ennþá búin að vera enskutími, þótt að það standi á stundatöflunni, þá mætir enskukennarinn aldrei. í sögu eru þau að læra almennt um Ekvador, loftslag og héruð, það er eitthvað sem ég lærði um ísland þegar ég var 8 ára. Ég hef líka áttað mig á því að í skóla lærir þú ekki bara staðreyndir, þú lærir líka að hugsa. 

Ótrúlegt hvað það skiptir fólki miklu máli hérna hvernig maður er á litin. Það eru mjög miklir fordómar hér! Fólk lítur upp til mín, bara af því að ég er hvít og ekki skemmir fyrir að ég sé með blá augu og svo er litið mjög mikið niður á svart fólk. 

Ég hef aldrei fundið jafn mikið fyrir því að ég sé kvenkyns. Á íslandi finnur maður litin mun á því hvort kynið maður er, hef aldrei fundið mun á uppeldi míns og Tuma út frá því hvaða kyni við tilheyrum. Hér er það allt annað. Strákar hafa miklu meira frelsi en stelpur, það er líka miklu hættulegra fyrir stelpu að vera ein úti. Kynin líta líka allt öðruvísi á hvort annað hér en heima. Það er ekki borið mikla virðingu fyrir samböndum og finnst mikið um framhjáhald. Samband host foreldra minna er voðalega líkt því sem ég er vön en ég hef heyrt ýmsar skrýtnar sögur frá öðrum skiptinemum um hvernig samband host foreldra þeirra vikra. Ég hef oftar en einu sinni lent í því að strákur segi mér að hann eigi ekki kærustu (eftir að ég er búin að segja honum að ég eigi kærasta) svo á hann bara kærustu til margra ára jafnvel. Það spurja allir hvort maður sé á föstu, hef meira að segja lent í því að kennari spyrji mig um það haha. 

Ég er mjög þakklát fyrir frelsið sem ég hef heima á íslandi. Það er allt svo miklu hættulegra hér. Og þau passa mig mjög vel, má aldrei gera neitt ein. Það á samt eftir að skána þegar ég næ betri tökum á spænskunni. Það er ekki hægt a bjarga sig hér á ensku, það kann hana mjög fáir. Ég er samt ekki nógu duglega að æfa mig í spænskunni, það er svo auðvelt að tala ensku við host systir mína og hina skiptinemana, og mér finnst líka fáránlegt að tala ekki íslensku við Arnar Óla (íslenskur skiptinemi, sem er með mér í bekk). En ég ætla að taka mig á!


Vá þetta varð bara langt hjá mér! Ég ætla að láta þetta gott heita. Vona að þið hafið ánægju af því að lesa! Og endilega komenntið. Mjög gaman að lesa komment frá ykkur.



Sjávaréttasúpan sem ég sagði ykkur frá (mamma og pabbi) að við borðuðum einu sinni úti á götu í morgunmat. Mjög gott!
 Kveðja Jana



Thursday, September 8, 2011

Ekvador og skólinn!



Quito í bakgrunn


Ég er byrjuð í skólanum. Ég ætla að taka myndavélina með einn daginn og sýna ykkur myndir. Skólinn er mjög afslappaður. Fyrstu 2 dagarnir gerðum við nákvæmlega ekki neitt! Horfðum á sjónvarpið og spiluðum í kennslustofunni, kennaralaus. Í dag var fyrsti dagurinn sem var einhver kennsla, þrátt fyrir það var hún ekki mikil. Ensku kennarin er verri en ég í ensku! Krakkarnir eru mjög indælir. Reyna mikið að tala við okkur skiptinemana og eru mjög forvitin og óhrædd við að spurja. Þeim finnst ekkert skrýtið að standa 5 saman í kring um borðið mitt og skoða hvað ég er að gera, þrátt fyrir að ég geti ekki haft mikið samskipti við þau. En mér lýst bara vel á þetta og hlakka til að sjá hvernig þetta verður allt saman :D Og eitt í lokin um skólann: Það er engin klósettpappír á klósettunum!

Hér eru nokkrar myndir af húsinu:

Húsið

Bakgarðurinn

Húsið við hliðin á mínu, smá munur á þessum tveim húsum.

Rúmið mitt!

Og skrifborðið mitt.


Ekvador:

Umferðin er klikkuð hérna. Fólk heldur að það geti allt og eigi allt ef það er á bíl. Fótgangandi vegfarendur eiga engan rétt, ekki einu sinni á göngubraut. 

Það er alltaf fullt af fólki, konur, karlar, börn og gamalmenni að selja ýmislegt á götum úti og á milli bíla. Mat, ávexti, leikföng og fjarstýringar!

Það notar engin bílbelti! og oftar en ekki eru ekki bílbelti í bílunum. Það að það séu 5 sæti í bíl þýðir ekki að það komist ekki fleirri fyrir í bílinn er lögmál hérna. Við erum alltaf 6 í 5 manna bíl. Hjá hinni fjölskyldunni vorum við einu sinni 12 manns og ungabarn í 7 manna bíl.

Þau borða popp (poppað í örbylgju eða potti) út í súpur! Mjög gott!

Aðal máltíðin er um 2 leytið og það er aðeins borðað snarl í kvöldmat. 

Það eru alltaf trilljón starfsmenn allstaðar. Ég fór í bíó og það voru 12 manns að vinna í sjoppunni (það voru 4 kassar).

Laun kennara hér er 300 dollarar. Sem er tæplega 35.000 krónur.

1 L af bjór og hamborgari = 2 dollarar! En allt innflutt er dýrt hér, t.d sjampó og sólarvörn. 

Börnin hérna eru mestu krúttin. 

Það verður alltaf dimmt á slaginu hálf 7. 

Sjúklega mikil stéttarskipting. í sömu götu getur verið hvorttveggja risa stór hús og mjög fátækleg hús.
Það líta allir eins út hérna. Það eru engir innflytjendur og lítið af túristum að mér finnst. Það er mikið horft á mig á götunni.

Fólk heilsast með því að kyssa hvort annað á kynninga, nema karl og karl, þeir takast í hendur. Ég er alltaf að fá koss á kinnina!

Allir kunna að dansa hérna! Strákar og stelpur, gamalt fólk og ungt fólk! 

Sunnudagur er fjölskyldudagur. Á sunnudaginn fórum við fjölskyldan út að borða sjávarréttasúpu (í morgunmat!) , röltum um Quito og horfðum a mynd um kvöldið.

....og svo miklu meira


Ég, Stefy og vinkonur hennar

Valle de los chillos 



Tuesday, August 30, 2011

Komin til host fjölskyldunar!


Nú er ég komin til host fjölskyldunar minnar. Þau sóttu mig á sunnudaginn. Þau eru mjög indæl. Ég fékk blóm og köku og svo var myndatöku með fjölskyldunni.
Fjölskyldan samanstandur af: Mömmu (Fanny), Pabba (Agusto), Stefy (18 ára), Roberto (12 ára) og victor (5 ára)
Það talar engin ensku nema Stefy, sem er hvetjandi fyrir spænskulærdóminn. Stefy er virkilega vinaleg. Eiginlega of vinaleg. Hún bauð mér meira að segja að við gætum deilt herberginu hennar ef mér litist ekki á mitt! Minnsti strákurinn er algjör dúlla og talar endalaust við mig, á spænsku auðvitað, og ég kinka bara kolli, nema þegar hann segir mér að segja nei.


Ferðalagið var mjög skemmtilegt og við íslensku krakkarnir orðnir góðir vinir. Við flugum til New york og gistum þar eina nótt. Þar byrjaði menningarsjokkið. Ætluðum að rölta og fá okkur að borða, en það er víst ekki auðvelt að rölta í iðnaðarhverfi í New York. Bílarnir keyrðu sjúklega hratt og umferðaljósin voru skuggalega stutt. En við enduðum á því að borða versta hamborga sem ég hef smakkað. Eftir 3 tíma svefn flugum við áfram til Miami. Þar biðum við í 6 tíma og siðan var forinni heitið til Quito.


Í Quito var komunámskeið. Á leiðinni þanngað fékk ég annað menningarsjokk. Engin belti og bílstjórinn keyrði eins og brjálæðingur, á móti umferð og alles. Sunnudaginn 21. áttu skiptinemar að fara til host fjölskyldunar sinnar. Fjölskyldan mín var í ferðalagi þannig að ég átti að dvelja hjá einhverjum öðrum. Það endaði með því að ég fór heima með Ingo og Genny. Þau voru að sækja Milan, host sonin sinn en enduðu með að taka 3 skiptinema með heim. Milan, mig og Rio (AFS í Ekvador ekki alveg það besta). Ingo er rúmlega 2 metra þjóðverji (felstir Ekvadorar ná varla 1,50!) og Genny er Ekvadori. Þau eiga 3 stelpur og svo vinnur hjá þeim ungt fólk sem ferðast um s-Ameríku og vinnur á bóndabænum. Þau eiga lítin lífrænan bóndabæ. Rækta grænmeti og selja kjöt. 


Skólinn byrjar ekki fyrr en 5.september. Svo ég er búin að vera í fríi. Hjá Ingo og Genny upplifði ég margt. Á fyrsta degi eignaðist ein geitin afkvæmi. Það var mjög skemmtileg upplifun að sjá tvær litlar geitur fæðast og ekki svo langt eftir fæðinguna stóðu þær á fætur og leituðu af spennanum. Allir voru samankomnir að horfa á. Svo hjálpaði ég Igno að búa til lítið hús fyrir þær. Einnig fór ég á nokkra markaði þar sem allt er selt. Dýr, matur, föt og ýmis dót. Ég smakkaði allskonar mat og góðgæti frá Ekvador á mörkuðunum. Svo ekki sé minnst á ávextina og ávaxtasafana! mmmm. 

Á einum markaðinum keyfti Ingo kálf, á 35 dollara. Það er sjúkt! Kálfur á 4000 kall. Ég fór eining í skoðunarferð til Quito. Fór á 2 söfn með um listamanninn Guayasamin og rölti um borgina. Vikrilega skemmtilegur dagur. Á samt eftir að sjá gamla hlutann af borgini, hann er sagður mjög fallegur. 

Eitt kvöldið eldaði ég plokkfisk fyrir mannskapinn. Hann heppnaðist mjög vel. Nema það vandaði rúgbrauðið... Maturinn er mjög þungur og feitur almennt hérna í Ekvador... og það er borðað soldið mikið af brauði. En ég fæ mér bara einhvern gómsætan ávöxt í staðin, því það er nóg af þeim. 


Hér eru allir eins, og það er mikið horft á mann á götunni ef maður er öðruvísi. Síðasta kvöldið mitt hjá Ingo og Genny röltum við öll í miðbæ Tombaco að fá okkur ís. Sem gerði okkur af 2 metra háum þjóðverja, Ekvadora, sem lítur út fyrir að vera Frakki, 2 blandaðar litlar stelpur, íslending, belga, japana, svertinga, konu frá Costa Rika, mexíkana og englending. Bókstaflega allir sem sáu okkur við störðu á okkur, skrítnu “fjölskylduna”. Það var mjög fyndið.


Í dag er ég búin að taka upp úr töskunni og koma mér mjög vel fyrir í nýja herberginu. herbergið er mjög passlegt og það er sér baðherbergi!! (sem er jafn stórt og baðherbergið á Sogaveginum, sem við notuðum 5). Um eftirmiðdaginn fór ég með Stefy í danstíma, það var ótrúlega gaman og ætla ég að halda því eitthvað áfram. 






mmmm ávextir


Verið að huga að ný fæddu geitunum


Fjölskyldan (vantar pabban) og ég brunninn í framan og með lokuð augun :D


Markaður

Cotapaxi

Chao!
Jana